148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mig langar þó aðeins að fá að vita betur um þetta mál. Svissneska leiðin í Sviss er nýting séreignarsparnaðar, en Framsóknarflokkurinn hefur boðað að nýta samtryggingarsparnað sem verkalýðshreyfingin hefur lagst mjög eindregið gegn. Ríkisstjórnin leggur á sama tíma mikla áherslu á góðan frið á vinnumarkaði. Mér þætti þá áhugavert að heyra hvernig það rímar saman.

Hitt, hvað varðar skattkerfisbreytingarnar er alveg skýrt, og eitt af því fáa sem er mjög skýrt í stjórnarsáttmálanum, að lækka eigi neðra skattþrepið. Það gagnast afskaplega lítið þeim allra tekjulægstu og breytir voðalega litlu um skattleysismörk. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á því hvernig þessar skattkerfisbreytingar, þ.e. lækkunin — gefum okkur að hún sé prósenta á neðra þrepinu — gagnast tekjulægsta hópnum. Í hverju felst þá kerfisbreytingin á tekjuskattskerfinu sem boðuð var í áherslum Framsóknarflokksins?