148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:56]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel samhug ríkja innan ríkisstjórnarinnar að klára þetta mál. Það er mjög skýrt í stjórnarsáttmálanum. Auðvitað skiptir útfærslan öllu máli. Þrátt fyrir að þetta hafi verið skoðað fyrir einhverjum árum síðan, málið kom hingað inn og hlaut ekki afgreiðslu, þarf bara að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Við þurfum ekki að byrja á núllpunkti í umræðunni. Í mínum huga snýst þetta ekki beint um tekjuöflun. Auðvitað má færa fyrir því rök að ferðamenn sem koma hingað til njóta náttúrunnar eigi að greiða gjald fyrir kostnaðinn sem af því hlýst, en ekki skattgreiðendur. Hins vegar skilar ferðaþjónustan tugum milljarða í ríkissjóð. Það er eitthvað til í því þegar sagt er að ef einn maður hafi bjargað okkur í hruninu þá hafi það verið ferðamaður.

Ég held hins vegar að umræðan öll sé hluti af hinum samfélagslegu þolmörkum sem við þurfum að vera vakandi fyrir. Ég held að ferðaþjónustan átti sig líka á því. Þess vegna tel ég það, bæði til þess að sýna að stjórnmálin virka og að hægt sé að taka ákvarðanir og eins fyrir ferðaþjónustuna, að rétta líka fram höndina, að við verðum að geta komið okkur saman um að klára þetta mál. En auðvitað skiptir útfærslan máli. Auðvitað verða ekki allir ánægðir. Það er nú sjaldnast svo að menn og konur hoppi af gleði þegar lögð er til einhvers konar gjaldlagning.

Þegar við fjölluðum um áform varðandi virðisaukaskattinn kom líka fram að menn vildu frekar eitthvað annað. Og þegar það verður gert þarf enginn að segja mér að fullkomin sátt muni ríkja um það. En það er bara partur af verkefninu sem við þurfum að vinna.

Ég held að kominn sé tími til þess að setja punkt aftan við umræðuna, en við þurfum þá sömuleiðis að hafa í huga að við erum nú þegar með ýmiss konar gjaldtöku fyrir þá þjónustu sem veitt er. Það er bara gott. Svo myndi ég vilja eyða meiri tíma í að ræða hvað þó hefur verið gert. Þegar talað er um að ekkert hafi gert eða að það sé svo mikið kaos þá er ég ekki sammála því. Að mörgu leyti gengur þetta allt saman mjög vel. En það skiptir öllu máli fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu til lengri tíma að tryggja að náttúran njóti vafans.