148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:59]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Ef ráðherra var að vísa í orð mín um að kaos ríkti í ferðaþjónustu þá sneru þau að gjaldtökuhugmyndum í ferðaþjónustu, ekki ferðaþjónustu almennt, sem er atvinnugrein sem ég ber mikla virðingu fyrir.

Ég er að ákveðnu leyti sammála því að þetta snúist ekki um gjaldtökuna þ.e. tekjuöflunina eina saman. En engu að síður erum við að ræða atvinnugrein, eina af undirstöðuatvinnugreinum okkar, heldur betur, sem byggir á þjóðareign. Það skiptir máli fyrir þjóðina að fá sanngjarnt afgjald fyrir afnot af þeirri grein. Og það skiptir máli að stjórnvöld hafi þor og kjark og kraft til að klára þau mál á upphafsárum þessarar atvinnugreinar til þess að lenda ekki í því að skapast hafi hefðarréttur á einhver mál sem síðan taki ár og áratugi að vinda ofan af. Við þekkjum slík dæmi.

Ég fagna þess vegna áherslum hæstv. ferðamálaráðherra og hlakka til að fylgjast með framgangi mála og mun styðja góð verk sem koma fram í þeirri grein. — Takk fyrir samtalið.