148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:00]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langaði að byrja á að segja að þessi málaflokkur, velferðarmál, er stór málaflokkur. Ég tek ekki á nægilega mörgu í 1. umr. en ætla að fókusera á nokkur atriði.

Það var talað fyrr í dag um að stjórnarandstaðan þyrfti að hafa skilning á því að ekki væri hægt að leysa öll vandamál á fyrsta ári. Ég hef að sjálfsögðu fullan skilning á því. En fyrsta árið er samt til marks um það sem koma skal. Að byggja sanngjarnara samfélag snýst ekki einungis um magn fjárveitinga eða peninga í hvern málaflokk heldur hvernig því fjármagni er varið. Samkvæmt frumvarpinu núna er gert ráð fyrir sérstakri hækkun framfærsluviðmiðs örorkulífeyrisþega, sem þýðir að sérstaka framfærsluuppbótin mun hækka. Þetta er dæmi um hækkun sem lítur voða vel út á pappír en raunáhrifin á líf öryrkja verða lítilvæg þar sem króna á móti krónu skerðingin mun að mestu leyti hirða alla hækkunina.

Enn og aftur er verið að efla neikvæða virknihvata innan almannatryggingakerfisins á meðan markmið málaflokksins er að hvetja öryrkja til vinnu. Það hefði verið mun áhrifaríkara og í samræmi við ofangreint markmið sem og markmið um einföldun örorkulífeyriskerfisins að leggja framfærslubótina niður og færa hámarksfjárhæðina þess í stað inn í tekjutrygginguna, sem er óháð krónu á móti krónu skerðingu, alla vega hvað varðar atvinnutekjur.

Píratar koma til með að leggja fram þingmál þess efnis og vona ég að málið verði skoðað af alvöru því að áhrifaríkasta leiðin til að hvetja öryrkja til vinnu er að minnka krónu á móti krónu skerðingar.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem um ræðir á ekki að tækla skerðingar en þess í stað að leggja áherslu á starfsgetumat. Þar kemur fram að starfsgetumatið eigi að koma í stað læknisfræðilegs örorkumats þegar það getur átt við þannig að meiri áhersla verði lögð á getu fólks til starfa. Sú aukning sem við horfum fram á í nýgengi örorku er að miklu leyti til komin vegna þess að fólk er að bugast á vinnumarkaði vegna streitu og álags. Ég hefði haldið að það væri frekar augljóst merki um að eitthvað sé að bregðast í samfélagsgerðinni sem við höfum sniðið okkur. Það er eitthvað sem er ekki alveg í lagi í samfélagi okkar þegar fólk heltist af vinnumarkaði vegna geð- og stoðkerfissjúkdóma. Úrræðaleysið skín í gegn þegar lausnin á vandamálinu á að vera að koma þessu fólki aftur í það umhverfi sem það veiktist í til að byrja með og það eins fljótt og mögulega er hægt. Mér finnst eins og við séum að hugsa þetta skakkt.

Það er ljóst út frá stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar að þar er stuðningur við að taka upp starfsgetumat en í sérstökum umræðum um kjör öryrkja 1. febrúar 2017 komu skýrt fram efasemdir Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um starfsgetumatið. Það kom hins vegar voða lítið fram um hvar Framsókn stæði í því máli. Ég er þess vegna forvitin að vita hver afstaða hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra er, bæði hvað varðar starfsgetumatið og einnig það að minnka krónu á móti krónu skerðingar eða afnema þær alveg. Þá er ég að hugsa þetta í samhengi við virknihvata innan almannatryggingakerfisins.

Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra. Við fáum væntanlega að sjá þingmálið fljótlega um framlengingu á bráðabirgðaákvæði um NPA. Það á að fara að auka samningana upp í 80 skilst mér en mig langar að vita hvenær það mun taka gildi. Verður þessi aukning strax í byrjun janúar eða kemur hún seinna? Og ef við erum að auka upp í 80, því að mér skilst að þessi aukning kosti um 70 milljónir, af hverju þá ekki að auka upp í 100? Það væru 70 milljónir í viðbót sem er ekkert það mikill peningur? Það myndi slá á þörfina sem er í samfélaginu, í þessum hópi, fyrir slíka þjónustu. Þetta eru ekki það háar upphæðir. Ég skil ekki af hverju við förum ekki upp í 100. Þörfin virðist vera miklu meiri en 80.