148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:05]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og óska henni til hamingju með formennsku í velferðarnefnd og vil byrja á að segja að ég hlakka til samstarfs við hana og alla nefndina.

Það er margt í máli hv. þingmanns sem ég get verið algerlega sammála um. Ég ætla að byrja á að koma að kjarnanum sem snýr að fjárlagafrumvarpinu og fara svo inn á önnur mál.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að fara í vinnu við starfsgetumatið. Það hefur þegar verið rætt við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp. En að gera það í mjög nánu og góðu samstarfi við þessa aðila. Við erum líka meðvituð um þær efasemdir og áhyggjur sem þessir hópar hafa af þeirri vinnu.

En það er líka gríðarlega mikilvægt að halda því til haga að í þeirri vinnu á líka að leggja áherslu á að endurskoða almannatryggingakerfið sem þessu tengist. Ég deili skoðun hv. þingmanns um að allar skerðingar og sá hvati sem er í kerfinu þarf að vera öðruvísi en er í dag. Það verður undir í þessari endurskoðunarvinnu og er þegar búið að boða það. Ég hef þegar rætt þetta við bæði þau samtök sem ég hef nefnt, Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp, og eins við aðra aðila sem koma að þessu, eins og aðilar vinnumarkaðarins. Það eru miklar áhyggjur af því að einfaldlega verði ekki í boði þær tegundir af störfum sem um ræðir og sá fjöldi starfa.

Síðan vil ég segja að gagnvart öllum þessum málum og einnig því hvernig skipulagið verður, hvernig við náum 300 þúsund krónunum núna, kem ég að þessu borði með mjög opnum huga og er þegar farinn að skoða hvaða leiðir og möguleika við höfum í þessu efni, en ekki er komin endanleg niðurstaða í það.

Síðan langar mig að koma inn á fyrri hlutann af ræðunni, sem eru þær (Forseti hringir.) áhyggjur sem hv. þingmaður hefur af ungu fólki í dag, kem kannski inn á þær í seinna andsvari því að tíminn er búinn.