148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar í þessari stuttu tölu að fara aðeins inn á það sem mér þótti skína í gegn í stjórnarsáttmálanum, við kynningu hans, og sneri að skattamálum, þ.e. að skattahækkanir sem fyrirséðar voru komi til afgreiðslu strax, skattalækkanir verði skoðaðar á kjörtímabilinu. Það er tónn sem ég var heldur svekktur með, en svona getur þetta verið.

Það eru þrjú atriði sem mig langar að koma inn á. Það er tryggingagjaldið. Það má segja að í kosningabaráttunni hafi menn verið nokkuð sammála um að svigrúm hefði skapast til lækkunar á því. Staðan er sú í dag að atvinnulífið er að borga rétt um 20 milljörðum meira á ári en ef skattprósentan væri sú sama og hún var 2007. Það munar nú nokkuð um það. Nú er enn bætt í, þ.e. um 8,2% hækkun á gjaldstofninum milli ára. Það kemur til af launahækkunum, auknu vinnuframlagi og síðan aukagjaldi eða hækkuðu viðbótarframlagi launagreiðanda í lífeyrissjóð.

Mig langaði til að forvitnast um það hjá hæstv. fjármálaráðherra hvort til skoðunar hafi komið að lækka álagningarprósentuna vegna þessa hækkaða gjaldstofns.

Síðan er annað atriði sem mig langar til að koma inn á, það er kolefnisskatturinn. Hann er núna hækkaður um 50%. Í samhengi við þá hækkun talar hæstv. umhverfisráðherra um að fram undan sé endurskoðun á grænum sköttum sem ég gef mér að verði unnin í samstarfi hans og hæstv. fjármálaráðherra. Það væri áhugavert að heyra hvað menn sjá fyrir sér í því þegar menn hækka skatta um 50% með kveðjunum, með leyfi virðulegs forseta: You ain‘t seen nothing yet. Þegar er búið að tala um að þetta hefði átt að vera 100% og nóg sé að sækja þarna. Hvað sjá menn fyrir sér í þessum efnum? Þetta skiptist auðvitað á samgöngur á landi, sjó og í lofti, en þarna er um verulegar fjárhæðir að ræða.

Þriðja skattahækkunaratriðið sem mig langar til að koma inn á, sem mér þykir útfært með nokkuð öðrum hætti en gera hefði mátt ráð fyrir af lestri stjórnarsáttmálans, er fjármagnstekjuskatturinn. Nú er verið að hækka fjármagnstekjuskattinn um 10% án þess að nein breyting komi til á skattstofninum sem var. Ég held að flestir hafi skynjað það við kynningu stjórnarsáttmálans að það hékk saman að ríkissjóður færi að sækja þessa skatta af raunvöxtum en ekki nafnvöxtum eins og hingað til. Það hefði gert þessa 10% skattahækkun alla mun bærilegri og eflaust sanngjarnari. En rökstuðningurinn fyrir þessu var meðal annars sá að þetta gerði skattkerfið sanngjarnara. En núna þegar bara annar leggurinn er keyrður í gegn, þ.e. 10% skattahækkun á fjármagnstekjuskatt, þá getur maður ekki annað en spurt: Hvar er sanngirnin í því?

Síðan er ein spurning til hæstv. fjármálaráðherra hér í lokin. Heildarútgjaldaleggur fjárlagafrumvarpsins, það eru háar tölur í heildina. Það væri áhugavert að heyra hvar hann teldi helst svigrúm til að draga úr útgjöldum ríkisins miðað við það sem nú er lagt fram. Allir sem hafa komið að einhverjum rekstri þekkja það að þegar tölurnar eru háar og útgjöldin mikil þá er iðulega svigrúm til að skera niður einhvers staðar eða draga saman.

Áhugavert væri að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra hvað þetta varðar; umhverfisráðherrans varðandi það hvað hann sér fyrir sér í grænum sköttum til viðbótar við áframhaldandi hækkun kolefnisskattsins og fjármálaráðherrans hvað þau atriði varðar sem ég tæpti hér á.