148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin. Hefur það eitthvað komið til umræðu í þessu samhengi, miðað við þessa skoðun sem er fram undan varðandi raungjaldstofn fjármagnstekjuskatts, að fresta þessari hækkun skattsins? Ég gef mér að sú umræða hafi komið fram við vinnu fjárlaga því að mér finnst algjörlega ótækt að í svona tvíhliða aðgerð sé annar leggur kláraður en ekki hinn. Það er ekki góður bragur á því.

Í samhengi við lækkun skatta almennt þá benda flestar spár til þess, eins og ég held að hæstv. ráðherra hafi komið inn á í ræðu sinni hér í byrjun dags, að það sé að draga úr spennunni. Þó að vissulega sé vöxtur fram undan þá eru líkur til þess að hægt sé að ná mjúkri lendingu. Er það ekki einmitt tíminn til þess að leita leiða til að fólk haldi eftir hærri hluta þeirra tekna sem það vinnur sér inn, fólk og fyrirtæki. Mér þykir fyrirtæki landsins almennt skattlögð mjög harkalega í gegnum tryggingagjaldið. Fyrir hrun var skatthlutfallið 5,34% og 3,5% atvinnuleysi. Bera má það saman við það að í því litla atvinnuleysi sem nú er er skatthlutfallið 6,85% og skattstofninn að hækka til viðbótar við launaþróun og heildarvinnuframlag, til að mynda með auknu framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð.