148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:30]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Eins og ég nefndi í morgun er kolefnisgjaldið sem sett er á núna 50% og þarna er kannski farin ákveðin millileið. Í framhaldinu, líkt og stendur í stjórnarsáttmálanum, á að ráðast í að hækka það á kjörtímabilinu. Sú vinna er ekki farin almennilega í gang á milli okkar fjármálaráðherra, að komast í það hvernig nákvæmlega það verði útfært.

Ég vil koma aðeins inn á að það eru náttúrlega ákveðnar ívilnanir, og svara þar með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni sem spurði áðan en er ekki viðstaddur núna. Í bandorminum er verið að framlengja ívilnanir til rafmagnsbíla og vetnisbíla og annarra umhverfisvænna bíla til þriggja ára til að búa til hvata til þess að fleiri fjárfesti í slíkum bifreiðum. Það hefur verið sýnt fram á það erlendis að það er líklegra til að skila árangri að draga úr kostnaði á kaupverði frekar en rekstrarkostnaði. Það er verið að mæta því.

Kolefnisgjaldið er eitthvað sem hefur farið vaxandi, einkum annars staðar á Norðurlöndunum en líka í Evrópu og er eitthvað sem við verðum, held ég, að nálgast með svolítið jákvæðu hugarfari, einfaldlega út af þeim mikla vanda sem við okkur blasir í loftslagsmálunum. Sá vandi er mjög stór, eins og við öll vitum. Við verðum að leita leiða til að búa til hvata sem draga úr notkun kolefnaeldsneytis. Á móti kemur að það eru fleiri sjónarmið sem ég veit af, sérstaklega úti á landsbyggðinni.