148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ekki síst hvatninguna um brókina. Um þetta vil ég segja almennt: Það er ekki þannig í þessum tiltekna málaflokki, að því er varðar uppbyggingu hjúkrunarheimila, frekar en í öðrum þeim sem lúta að heilbrigðismálum, að þar sé eitt svar sem leysir öll mál. Stór og mikilvægur hluti þess málaflokks sem lýtur að eldra fólki á Íslandi snýst um skort á hjúkrunarrýmum. Það hefur valdið óþarfa álagi á sjúkrahúskerfið okkar að ekki hafi verið hægt að útskrifa gamalt fólk vegna skorts á slíkum rýmum. Við því þarf að bregðast.

Það breytir því ekki að þjónusta við gamalt fólk er margþætt og margslungin og snýst um heimaþjónustu og dagvistun og dvalarheimili og allt mögulegt annað. Þessi málaflokkur útheimtir ekki eina rétta niðurstöðu heldur samsett svör, enda er það þannig að gamalt fólk er bara fólk eins og við hin. Það duga engar pakkalausnir fyrir slíkan aldurshóp frekar en annan aldurshóp í samfélaginu. Það eru mismunandi væntingar, mismunandi kröfur, mismunandi félagslegt bakland, mismunandi heilsufar, mismunandi lundarfar, og svo ótal margir aðrir þættir sem koma þar inn. Til þess að koma til móts við aldraða þarf líka að gæta að fjölbreytileika.