148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæðan áhuga á störfum lögreglunnar. Ég vænti mikils í samstarfi við hana í fjárlagavinnunni þegar kemur að þeim mikilvæga málaflokki, sem ég hef sagt hér og ítreka og árétta að er einn af grunnstoðum réttarríkisins og mikilvægt að standa vörð um hann.

Mér þykir hv. þingmaður samt skauta helst til léttilega fram hjá þeim fjárheimildum sem hafa verið auknar ár frá ári undanfarin ár. Hún telur það t.d. léttvægt að 400 millj. kr. framlag sem hefur verið veitt tímabundið sé gert varanlegt. Frá mínum bæjardyrum séð er það ávallt þannig að tímabundin framlög eru ekki sjálfkrafa varanleg. Það var ekki sjálfgefið að þetta framlag yrði varanlegt en í ljósi reynslunnar og eftir skoðun er gerð tillaga um að svo verði.

Þess utan eru fjárframlögin aukin um ríflega 300 milljónir til ýmissa aðgerða en þó sérstaklega eyrnamerkt í það átaksverkefni sem ríkisstjórnin hefur sett á forgangslista hjá sér og varðar meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu.

Nú er það svo að það er ekki liðið langt frá því að við breyttum í verulegum mæli fyrirkomulagi löggæslumála með fækkun og stækkun lögregluembætta. Sú breyting er enn að skila árangri. Við erum enn að meta þann árangur og eigum eftir að meta endanlega hver árangurinn af þeirri skipulagsbreytingu hefur verið. En hann hefur verið mikill og góður og jákvæður og jákvæð reynsla og samdóma álit manna í lögreglunni að vel hafi tekist til. Jafnvel tala menn um að gera þurfi betur og sameina fleiri umdæmi.

Ég hef því ekki áhyggjur af því að þeir ríflega 15 milljarðar sem veittir eru til löggæslumála (Forseti hringir.) séu ekki nægir til að tryggja öryggi borgaranna.