148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:58]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra verður að afsaka en það er tómt mál að vísa í fyrri fjárveitingar til embættis lögreglu um land allt eða til löggæslunnar í heild þegar ríkislögreglustjóri, núna á vormánuðum 2017, benti á að það þyrfti 3 milljarða í þennan málaflokk bara til þess að koma til móts við nauðsynlega fjölgun lögreglumanna.

Það er líka tómt mál að tala um að að sjálfsögðu verði öryggis borgara gætt. Það kom fram á fundi ríkislögreglustjóra með allsherjarnefnd þann 6. október 2015 að viðbúnaðargeta lögreglu væri óásættanleg og henni væri ekki fært að standa undir þjónustu eða öryggisstigi í samræmi við lögbundið hlutverk. Það eru rúm tvö ár síðan þetta var staðan. Lögreglumenn eru alltof fáir og verulega skortir á fjárveitingar til löggæslu.

Það hefur verið sent inn neyðarkall ár eftir ár. Dómsmálaráðherra lætur eins og það skipti engu máli, eins og nóg sé gert, eins og fyrrum fjárveitingar séu fullnægjandi. En það er augljóst af máli ríkislögreglustjóra að svo er alls ekki, því að inni í þeim tölum sem voru þegar hann mætti voru umræddar 400 milljónir. Þær voru til staðar þá. Samt var staðan svona grafalvarleg. En það er engu bætt við núna, engu umfram þann þátt sem á við um rannsókn og málsmeðferð kynferðisbrota. Það verður að gera betur, herra forseti.