148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski pínulítið óhefðbundið en mér finnst þetta efni eiga við innan byggðamálanna sem ráðherra fer fyrir: Það eru húsnæðismálin. Þó að þau kannski komi víða við í velferðarráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu varðandi úthlutun lóða og svo framvegis fyndist mér ekkert óeðlilegt að hæstv. ráðherra hefði einhverja yfirsýn yfir hvernig þróun húsnæðismála er á landinu.

Mig langaði til að inna hann svara um þær áætlanir sem ríkisstjórnin ætlar að fara í samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi og á komandi kjörtímabili til þess að mæta þeim húsnæðisvanda sem við glímum við, einfaldlega þeim að fólk þurfi að búa á tjaldsvæðum í sinni skýrustu mynd — í sinni köldustu mynd væri kannski réttnefni, eins og hún lýsir sér akkúrat núna.

Samgönguáætlun, ef við skiptum aðeins um gír. Hún er ekki fullfjármögnuð. Ekki enn. Ég veit ekki til þess og get ekki lesið út úr fjárlagafrumvarpinu að hún verði það. Það væri ágætt að komast að því hvort það muni gerast eða hvort samgönguáætlun verði endurskoðuð á einhvern hátt þannig að hún verði fullfjármögnuð, þá í sambland við fjármálaáætlun. Það væri eðlilegur staður til að vinna henni fjármagn.

Og að lokum frétti ég af því að það væru einhver vandkvæði við framkvæmdir á Vaðlaheiðargöngum sem tefðu framkvæmdir, meiri leki eða eitthvað því um líkt. Ég var að velta fyrir mér hvort það hefði áhrif á þá fjárveitingu sem Alþingi veitti til þeirra framkvæmda, sem er með ríkisábyrgð, á síðasta þingi.