148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi húsnæðismálin er mér bæði ljúft og skylt að svara fyrir þau þó að þau heyri ekki beint undir þetta ráðuneyti en tengjast því auðvitað. Það má heita að það sé húsnæðisskortur um allt land. Eitt af því sem við skrifuðum í stjórnarsáttmálann er m.a. aukið samstarf við sveitarfélögin um aukið lóðaframboð og kostnað við lóðir til að halda niðri byggingarkostnaði. Það er verkefni sem við þurfum að fara í. Það hefur líka verið rætt um hvernig hægt sé að lækka þröskuld inn á markaðinn fyrir ungt fólk og tekjulága til að kaupa sér húsnæði. Það er mjög stór hópur sem er á leigumarkaði sem vill gjarnan eignast húsnæði. Auðvitað líka einhverjir sem vilja vera á leigumarkaði og þá þarf leigumarkaðurinn að vera virkur. Við erum búin að lagfæra lagaumhverfið þar í kring en vegna þess að ekki er nægilegt framboð er ekki kominn á eðlilegur markaður að þessu leyti. Það þarf líka að velta fyrir sér hvort sveitarfélög hafi auknar heimildir til að fara inn á það verksvið, til að mynda nefni ég eitt fyrirtæki, Airbnb, sem hefur haft mikil áhrif, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu en líka á einstökum svæðum úti á landi. Þannig að það er margt sem ríkisstjórnin hyggst gera varðandi húsnæðismálin.

Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á varðandi samgönguáætlunina. Núverandi fjögurra ára áætlun og núverandi fjármálaáætlun, sem er náttúrlega að renna sitt skeið með því að við erum að leggja þetta fram hér eftir kosningar, hafa ekki rímað saman. Ég held að það hafi vantað eina 7,5 milljarða inn í viðhald og framkvæmdapakkann, eru 19, þyrftu að vera 26 ef ég man rétt. En hugmyndin er sem sagt sú að koma annars vegar fram með fjögurra ára og tólf ára samgönguáætlun og hins vegar fimm ára fjármálaáætlun sem rími. Þar muni þá sjá betur stað þeim hugmyndum sem ríkisstjórnin hyggst hrinda í framkvæmd.

Varðandi uppákomur við (Forseti hringir.) framkvæmdir á Vaðlaheiðargöngum þá þekki ég það einfaldlega ekki en skal koma þeim upplýsingum til þingmannsins þegar mér hefur auðnast að vita það betur.