148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. núverandi og fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra voru saman við opnun stórglæsilegra gatnamóta á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar. En það sem mig langar að spyrja hann um er kaflinn frá Kaplakrika að Krýsuvíkurvegi. Það er einn slysamesti kafli landsins. Þarna verða um 28 slys á hvern kílómetra. Þetta er skelfilegur kafli líka að því leyti til að í Setbergshverfinu við Reykjanesbrautina er fólk fast inni kvölds og morgna. Fólk kemst ekki út á morgnana og ekki heim til sín á kvöldin, sem er alveg skelfilegt. Það hefur verið haldinn heill fundur um það þar sem fólk biður um að eitthvað sé gert í þessum málum.

Annað er að við Kaplakrika varð stórslys. Ungur drengur slasaðist illa þegar hann fór á milli akreina, flýgur á milli. Þarna vantar vegrið til að koma í veg fyrir að bílar þeytist á milli. Það er nú ekki dýr framkvæmd og ætti að vera auðvelt að sjá til þess að svona smáhlutir verði framkvæmdir. Annað sem er í þessu er að það að lenda í umferðarslysum er dýrt fyrir þjóðfélagið. Það er mun dýrara fyrir þjóðfélagið á svona köflum þar sem margir slasast og með skelfilegum afleiðingum. Það hlýtur að vera hægt að gera eitthvað og sérstaklega við gatnamót Lækjargötu og Reykjanesbrautar. Þar þarf að setja upp mislæg gatnamót. Það er verið að tala um, sem er eiginlega skelfilegast af öllu, að setja ljós. Það var reynt og þá varð alveg svakaleg há slysatíðni þar.

Spurningin er: Hvað á að gera? Og hvenær?