148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:20]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir áhugaverðar spurningar. Framkvæmdir í umferðaröryggismálum eru yfirleitt mjög arðsamar fjárfestingar. Þær skila sér mjög vel. Í þeim áætlunum sem hafa legið fyrir og menn hafa unnið eftir og ég hef skoðað á þessum tveimur vikum sem ég hef haft tækifæri til að setja mig inn verkefnin sem þarna eru leggjum við áherslu á umferðaröryggismál en líka umferðarþunga, og reyndar líka aðra þætti. Það hefur verið tekið á ýmsum þáttum. Þetta var auðvitað mjög gleðilegur dagur í dag með opnun á flottu mannvirki við Krýsuvíkurveg.

Það sem er fyrirhugað á næsta ári og er viðbót sem við komum með núna inn í fjárlögin og til framkvæmda á næsta ári tengist hringtorgunum við N1 og við Kaplakrika í Hafnarfirði til þess að auka umferðaröryggi og líka til þess að hjálpa til við umferðina á þeim svæðum. Þá eru einnig uppi hugmyndir um fjármagn við afleggjarann á Hafnarfjarðarvegi og Vífilsstaðavegi sem er veruleg fyrirstaða og vandræðalegur staður í umferðaröryggi og til að liðka fyrir umferðinni á þessu svæði. Þetta eru allt verkefni sem eru fyrirhuguð strax á næsta ári.

Það má líka benda á að á síðasta ári var farið í tvö hringtorg á Reykjanesbrautinni nærri Flugstöð Leifs Eiríkssonar, líka á grundvelli þess að dreifa betur umferð og tryggja betur umferðaröryggi. Við getum sem sagt gripið inn í þó að við séum ekki að setja á tvöföldun Reykjanesbrautar, Vesturlandsvegar, Suðurlandsvegar, allt í einu, á sama tíma og Sundabraut og borgarlínu og allt sem þarf að gera. Við getum tekið (Forseti hringir.) afmarkaða staði og lagað mjög til. Það er verkefni sem við erum í núna.