148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætar ábendingar um hvað væri hægt að gera með litlum tilkostnaði og allt í þágu þess að tryggja betur umferðaröryggi og öryggi fyrir vegfarendur, hvort sem þeir eru gangandi, hjólandi eða á bílum. Það er mjög margt sem hefur verið til skoðunar. Ég þekki ekki til hlítar hvort tiltekin mislæg gatnamót séu á döfinni núna en það sem ég fór yfir áðan er það sem við ætlum að gera á næsta ári og er til viðbótar því sem ekki var til fjármagn í áður. Vegna þess að við erum að spýta í fáum við möguleika á að fara í þær framkvæmdir. En að öðru leyti mun ég án efa geta upplýst þingmanninn um þessi tilteknu gatnamót og mislæg gatnamót. Mislæg gatnamót kosta þó nokkuð marga milljarða, 5–6 milljarða þessi stóru, fullbúin, jafnvel 6,5. Við verðum auðvitað að fara vel með fé og forgangsraða og finna réttu staðina. Það er verkefni sem núna liggur fyrir hjá mér og ég mun án efa fara í á næstu vikum.