148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að beina orðum mínum til tveggja hæstv. ráðherra í kvöld, það er hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísar Svavarsdóttur og hæstv. dómsmálaráðherra Sigríðar Á. Andersen. Þar sem tíminn er naumur ætla ég ekki að hafa miklar málalengingar heldur vinda mér beint að efninu. Og á meðan ég freista þess að hæstv. heilbrigðisráðherra komi í salinn byrja ég bara á hæstv. dómsmálaráðherra.

Ég hef sérstakan áhuga á aðgerðaáætlun þessarar ríkisstjórnar gagnvart úrbótum í málefnum kynferðisbrota og hef verið að reyna að glöggva mig á því nákvæmlega hvernig ríkisstjórnin hyggst fjármagna þessa aðgerðaáætlun og hversu mikið hún kostar og á hvaða hátt henni verður hrint í framkvæmd. Það vekur áhuga minn sá staður sem þessi aðgerðaáætlun finnst, þ.e. í kaflanum um löggæslu, en þar er talað um að veitt sé 298 millj. kr. framlag til innleiðingar aðgerðaáætlunarinnar. Það skiptist í 178 millj. kr. framlag til að styrkja innviði lögreglu á sviði rannsókna kynferðisbrotamála og öllum þáttum málsmeðferðar, en svo kemur hér fram að 80 millj. kr. framlag skuli fara, af þessum 298 milljónum, til uppbyggingar upplýsingatæknikerfis fyrir réttarvörslukerfið.

Þetta vekur hjá mér ákveðnar spurningar, vegna þess að það hefur staðið til að koma á fót samræmdu upplýsingakerfi fyrir allt réttarvörslukerfið, alla vega frá því í síðustu fjárlögum. Ég finn ekki stað í þessum fjárlögum, þ.e. þegar kemur að réttargæslukerfinu, þar sem á að fjármagna þetta upplýsingatæknikerfi, nema einmitt hér, í kynferðisbrotamálunum.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Stendur virkilega til að aðgerðaáætlun í kynferðisbrotamálum sé ætlað að fjármagna upplýsingaáætlun fyrir gjörvallt réttarvörslukerfið? Er þetta ekki svolítið rangur staður fyrir þessa peninga? Eða er ég að missa af því hvar þetta upplýsingakerfi, sem minnst er á hjá Hæstarétti, héraðsdómi, Landsrétti, ákæruvaldinu — í öllum þessum málefnasviðum er minnst á þetta samræmda upplýsingatæknikerfi sem er vissulega til mikilla hagsbóta fyrir réttarvörslukerfið á Íslandi, en á aðgerðaáætlun í kynferðisbrotamálum að bera uppi kostnaðinn af því? Hvernig stendur á því?

Fyrir mér lítur þetta svolítið út eins og að það eigi að bólstra þá tölu sem setja á í kynferðisbrotamálin með því að borga fyrir eitthvað sem allir aðilar réttarvörslukerfisins þurfa á að halda innan þessa ramma. Til að það líti ágætlega út, að hér fari 300 milljónir í kynferðisbrotamál en hér erum við samt sem áður að setja 80 milljónir í kerfi sem ég sé hvergi annars staðar fjármagnað.

Spurning mín til hæstv. dómsmálaráðherra er þessi: Hver er raunverulegur kostnaður við þessa upplýsingatækniáætlun, þetta upplýsingatæknikerfi, sem dómskerfið og réttarvörslukerfið allt á að fá? Hvers vegna er fjármögnun fyrir því einungis að finna í kynferðisbrotamálunum? Og ég geymi kannski hitt fyrir andsvörin. Hvernig stendur á því að þetta er hvergi annars staðar fjármagnað en hérna í þessum kynferðisbrotamálum?

Hvað varðar hæstv. heilbrigðisráðherra er spurning mín létt og laggóð: Fyrr í kvöld var spurt um stöðu Landspítalans á árinu 2017. Mér skilst að markmið fjárlaganefndar, og ég var svo sem með í því, á síðasta ári hafi verið að ná heilbrigðiskerfinu úr mínus svo hægt væri að hefja uppbyggingu eins og allir flokkar vildu. Spurning mín er þessi: Stefnir í að við munum ná settum markmiðum og skila heilbrigðiskerfinu í plús í lok árs 2017? Og sé svo ekki, fæ ég einhvers konar heit heilbrigðisráðherra fyrir því að við stöndum við þetta gefna markmið fjárlaganefndar, þ.e. mun heilbrigðisráðherra beita sér fyrir því að Landspítalinn komi út í plús á árinu 2017 eins og fjárlaganefnd ætlaði sér?