148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna áhuga hv. þingmanns á aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu sem hefur legið til kynningar á vef dómsmálaráðuneytisins og gerir það enn þá. Veittur var umsagnarfrestur sem núna er liðinn. Það er verið að leggja lokahönd á endanlegt skjal þessarar aðgerðaáætlunar og það er líka verið að vinna í kostnaðarmati allra þeirra þátta sem þar koma fram. Hins vegar tókst okkur í aðdraganda þessa stjórnarsamstarfs að leggja gróft mat á kostnað sem fylgir þessari aðgerðaáætlun. Þar er annars vegar um fastan kostnað að ræða sem nemur nokkur hundruð milljónum og svo eru nokkur hundruð milljónir líka í einskiptiskostnað til þess að hrinda af stað ýmsum verkferlum og öðru sem kallar kannski ekki á stöðug fjárframlög til framtíðar.

Eins og hefur komið fram teljum við 298 milljónir til innleiðingar aðgerðaáætlunar í dag sem fara sérstaklega til löggæslunnar. Framlagið skiptist þannig, eins og kemur fram, að 178 milljónir fara í að styrkja innviði lögreglunnar á sviði rannsókna á kynferðisbrotamálum og 80 milljónir í framlag til uppbyggingar upplýsingatæknikerfis fyrir réttarvörslukerfið. Hv. þingmaður lætur að því liggja að þetta sé það eina sem lagt er af mörkum til þess að hrinda því mjög mikilvæga verkefni úr vör. Það má ekki gera lítið úr því þótt það gagnist öllum. Það er ekkert verra fyrir það. Það er einmitt betra vegna þess að það gagnast öllum í réttarvörslukerfinu. Þá vil ég benda hv. þingmanni á að það er tímabundin aukning fjárheimilda til héraðsdómstólanna, um 50 milljónir, sem mér finnst mjög ánægjulegt að geta kynnt hér, til endurnýjunar á málaskrá héraðsdómstólanna, sem er algert grundvallaratriði og forsenda þess að nokkuð verði áfram unnið í rafrænni stjórnsýslu í réttarvörslukerfinu.

Þannig að þessi kostnaður liggur þarna, að minnsta kosti í þessum tveimur liðum.