148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og spurninguna sem hún beindi til mín. Hún varðar í raun stöðu Landspítala – háskólasjúkrahúss á yfirstandandi ári. Því er til að svara að ég hef kallað eftir upplýsingum um það í ráðuneytinu. Þar kemur fram að ekki sé hægt að segja til um hvort Landspítalinn verði rekinn með halla eða ekki þar sem nýjustu tölur liggi ekki fyrir. Það er bara miður desember núna. En hins vegar ætti, samkvæmt mínum upplýsingum í ráðuneytinu, að vera mögulegt að skila árinu í jafnvægi, ef svo má að orði komast. Ég hvet hv. fjárlaganefnd til að kalla eftir þessum upplýsingum í ljósi þeirrar yfirlýsingar eða samkomulags sem varð til í fjárlaganefnd fyrir réttu ári þar sem fjárlaganefnd sammæltist um að eftir því yrði sérstaklega leitað og horft til þess.

Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að fjárlagafrumvarpið er að lokinni þessari umræðu komið til þingsins. Ég mun því eins og aðrir þingmenn beita mér til góðs fyrir góða málaflokka og auðvitað sérstaklega fyrir heilbrigðismálin. En ég mun ekki fara að beita sérstöku afli sem heilbrigðisráðherra í þeim efnum því að málið er úr höndum ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnskipan landsins. Það er fjárlaganefnd sem hefur málið með höndum og síðan er það Alþingis að vinna úr þeim tillögum sem þaðan koma.