148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir gott svar. Hún kemur þarna inn á fleira í svari sínu en bara svar við spurningu minni. Ég tel að grunninn sé að finna í grunnskóla. Þess vegna ýjaði ég að því að jafnvel yrði meira tekin stefna í þá átt að styrkja samvinnu með sveitarfélögunum.

Þegar er verið að tala um brotthvarf úr námi og að það sé miklu meira um það núna, og talað um geðheilbrigðisþjónustu í framhaldsskólum — og er það vel að eigi að taka utan um það — þá er spurningin einfaldlega þessi: Verðum við ekki að líta í ræturnar? Verðum við ekki að líta í grunnskólann þar sem 30% drengjanna okkar útskrifast illa læsir eða með lélegan lesskilning? Er það eitthvað skrýtið í raun og veru? Er þetta ekki bara orsakasamband? Er ekki orsakasamhengi milli hins gríðarlega brottfalls úr framhaldsskólunum og þess þegar þessir ungu menn og konur, sérstaklega ungir drengir, keyra á þann vegg sem óneitanlega hlýtur að blasa við þeim þegar þau stíga yfir á framhaldsskólastig?

Ég segi enn og aftur: Í mínum huga er það samvinnuverkefni ríkisvaldsins og sveitarstjórna að taka utan um börnin okkar t.d. í grunnskólanum — ég vildi nú alveg fara niður í leikskólann. Ég vil að tekið sé utan um börnin okkar strax um leið og þau eru komin í vörslu okkar, hins opinbera, að hvaða leyti sem er, í þeirri þjónustu sem við veitum, hvort sem það eru leikskólar eða skólar. Áður en við lítum lengra vil ég skoða ræturnar.