148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrr í dag nefndi ég að alla jafna væri eðlilegt að fyrsta fjárlagafrumvarpið byggði á núgildandi fjármálastefnu en ekki þeirri sem var lögð fram meðfram fjárlögunum. Undir eðlilegum kringumstæðum ætti að samþykkja það fyrst og jafnvel fjármálaáætlun. Þegar við lítum á aðstæðurnar eins og þær eru þá erum við að fara að vinna fjárlagafrumvarpið gríðarlega hratt. Það verður ekki eins vel unnið en við reynum og svo á að bæta því við að fjalla um fjármálastefnu. Það kemur niður á báðum málum.

Eftir að ég velti þessu upp fyrr í dag kom upp hugmynd: Allt í lagi, drífum í að taka 1. umr. um fjármálastefnuna. En við myndum aldrei ná því af því að umsagnarfrestur fjármálaráðs o.s.frv. myndi aldrei duga til að klára það áður en fjárlögin væru samþykkt hvort sem er. Það myndi aðeins leiða til þess að værum með tvö illa flutt mál sem fengju ekki eins mikla athygli og þau í rauninni þyrftu.

Ég var að velta fyrir mér hvort ráðherra væri sammála mér um þetta þegar maður hefur þessa tvo möguleika, eins og staðan er í dag, að taka bæði málin aðeins verr fyrir, hvort um sig, eða reyna að vinna fjárlagafrumvarpið á þeim aukatíma sem við fengjum annars, sem fjármálastefnan myndi taka. Það má taka gæðaumræðu um fjármálastefnuna eftir áramót af því að hún er til fimm ára og það er ekki hægt að endurskoða hana svo glatt. Það þarf eitthvað meiri háttar mál til þess að gera það. Þegar slíkar aðstæður koma fram þarf maður að velja og hafna hvað kosti varðar, alla vega sannfæringarlega séð, miðað við hvað á að gera. Ég mælist til þess að við reynum að einbeita okkur eins vel og við getum að fjárlagafrumvarpinu. Ég velti fyrir mér hvort fjármálaráðherra sé sammála mér um þetta ferli.