148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi hugmyndina um að fá nægan tíma fyrir fjármálastefnuna, og sérstaklega út af þeim málum sem fjármálaráðherra talar um, að lögin séu of stíf þegar kemur að endurskoðun til lengri tíma, þá held ég að það væri ekki gott að taka tíma af fjárlagaumræðunni fyrir áramót, þannig að við tökum hana eftir áramót. Við verðum varla komin með álit fjármálaráðs hvort sem er áður en við samþykkjum fjárlögin miðað við núverandi áætlun og þá munar það í rauninni engu fyrir meðhöndlun okkar á fjárlögunum eins og áætlunin er núna. Ég veit það ekki, það er alla vega mjög snúið ef við ætlum að fara að blanda þessu tvennu saman akkúrat núna. Ég sé ekki að við fáum neinar nýjar upplýsingar á þeim tíma sem við höfum með því að taka fjármálastefnuna til umræðu fyrir áramót. Ég mælist til þess að hún verði geymd þangað til eftir áramót, þrátt fyrir að það ætti alla jafna að gera þetta strax. Ég vil betri umfjöllun og meiri tíma í fjárlögin fyrst við höfum ekki meiri tíma en þetta. Ég vil líka meiri tíma og betra ferli og umfjöllun fyrir fjármálastefnuna. Það held ég að sé augljósasti kosturinn.