148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í fjármagnstekjuskattinn. Nú hafa fjármagnstekjur aukist mjög mikið á undanförnum árum og aukist meira en launatekjur. Sem dæmi á árunum 2012–2016 hafa fjármagnstekjur aukist um 58% en launatekjur á sama tíma aðeins um 24% og vísbendingar um að aukningin sé enn meiri á árinu 2017.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þessi litla breyting á fjármagnstekjuskattinum komi í veg fyrir það að þeir sem eru ríkastir, þeir sem eru með mesta fjármagnstekjuskattinn, muni nýta sér skattahagræði sem felst í því að borga ekki launaskattinn af eins háum tekjum heldur taka út arðinn. Mun skattahagræðið ekki enn þá vera mjög mikið fyrir þá allra ríkustu þar sem munurinn á efra tekjuskattsþrepinu og þessari hækkun er 8,64 prósentustig, (Forseti hringir.) en breytingin er aðeins 0,66 prósentustigum hærra en lægra tekjuskattsþrepið?