148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er dálítið snúin umræða, sérstaklega ef maður ætlar að reyna að afgreiða hana á tveimur mínútum

(Forseti (SJS): Einni.)

eða einni mínútu eins og ég hef hér úr að spila. Það er víst þannig að við höfum nú þegar dregið verulega úr hvatanum til að stofna hlutafélag um einhver störf. Ég hef farið aðeins yfir það hér í dag. Við höfum m.a. verið að velta fyrir okkur hvort við ættum að gera þeim sem eru að sýsla með eigið fé heima hjá sér skylt að reikna sér eitthvað hærra endurgjald en gert hefur verið ráð fyrir. Það verður áfram til skoðunar hvort hægt sé að beita þeirri aðferð til þess að ná þessu fram. Sú skylda er nú þegar til staðar. Reiknaða endurgjaldið verður aldrei lagt á þá sem eru að sýsla með eigið fé nema þeir séu raunverulega að gera það, t.d. ef þeir hafa falið einhverjum þriðja manni að gera það, þá er ekki hægt að gera þeim það að reikna á sig endurgjald vegna starfa sem ekki fóru fram.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að við höfum með þessari hækkun fjármagnstekjuskattsins og þeim breytingum sem við höfum gert á undanförnum árum (Forseti hringir.) dregið svo mjög úr hvatanum til þess að fara þarna á milli, úr tekjuskattskerfinu yfir í einkahlutafélagaskattumhverfið, að það eigi ekki að þurfa hafa miklar áhyggjur af þessu. (Forseti hringir.) En umræðan um deilingu tekjustofna með sveitarfélögunum er síðan annað mál.