148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í framlengingar á bráðabirgðaákvæðum. Það eru hérna tvær sem ég hef tekið eftir. Önnur varðar víxlverkanir, sem hæstv. ráðherra fór stuttlega yfir, í sambandi við greiðslur til öryrkja. Hin varðar frítekjumark öryrkja sem er áfram tímabundið. Ég veit að þetta veldur fólki miklum áhyggjum á hverju einasta ári. Það vill fá að vita fyrir víst hvort þetta verði áfram. Það er verulegur munur á aðstæðum fólks eftir því hvort þetta heldur áfram eða ekki. Ég spyr því bara þeirrar einföldu spurningar: Hvers vegna er þetta ekki gert varanlegt? Hvað er það sem þarf að gerast til þess að þessi óvissa verði ekki fyrir hendi fyrir þennan hóp sem nýtir þessi kerfi og þarf á þessum réttindum að halda?