148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er mjög flókið verkefni að reikna nákvæmlega út tekju- eða gjaldaáhrifin af breytingu eins og þeirri er varðar frítekjumarkið. Það er alls konar mannleg hegðun sem kann að breytast við það að hafa frítekjumarkið of lágt eða mögulega hafa það of hátt. En samkvæmt þeim forsendum sem við höfum gefið okkur er gert ráð fyrir að með því að stækka hóp þeirra sem eiga rétt á greiðslum úr almannatryggingum — og við stækkum hópinn með því að segja: það eru ekki bara þeir sem eru með allt að 25 þúsund krónum í atvinnutekjur heldur allt að 100 þúsund krónum, með því stækkar mengi þeirra sem geta sótt bætur í almannatryggingar eða eiga rétt á greiðslum þaðan — þá er niðurstaðan sú að það muni fara um það bil 1 milljarð umfram það sem ella færi til greiðslu bóta úr almannatryggingum. Það er niðurstaðan. Síðan er eflaust rétt hjá hv. þingmanni að það eru (Forseti hringir.) ekki nákvæmnisvísindi að reikna það þannig.