148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Forseti. Hæstv. fjármálaráðherra. Við skulum ekki gleyma því að þegar er verið að vísa til þess, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur gert, að það skipti máli að ekki hafi allir möguleika á því að nýta sér þessar rausnarlegu 100 þúsund krónur sem verið er að veita hér í frítekjumark á launatekjur, þá er staðreyndin sú að sá sem ekki getur nýtt sér það vegna þess að hann er ekki bær til þess, vegna heilsu eða annars, á einfaldlega að hafa þá möguleika á því frá hendi ríkisstjórnarinnar og þeirra sem eiga að ala önn fyrir okkur þegnunum og borgurunum hér í landinu, að þeim sé gert kleift að lifa af því sem þeim er skammtað. Þess vegna mælir sú kona sem hér stendur með 300 þúsund króna lágmarksframfærslu án þess að af því séu teknir skattar. Og með hagræðingu inn í skattkerfið og öllum þeim útreikningum og fínheitum sem hér eru í boði með öllum þeim sérfræðingum sem hér eru að starfa ætti það að vera leikandi létt að gera það og koma því til skila.