148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er öldungis ósammála hæstv. fjármálaráðherra um að það eigi að bitna á 90% þeirra sem vinna að einhver 10% hafi það rosalega gott. Hitt er svo annað mál að ég fagna þeim áhuga sem kemur fram í máli hæstv. fjármálaráðherra á því að bæta kjör þeirra sem bágast standa. Það mun ekki standa á Miðflokknum að hjálpa honum á þeirri vegferð. Ég vil minna á að á nýlegri ráðstefnu Félags eldri borgara kom fram að tekjudreifingin þar er með öðrum hætti en ég hafði ímyndað mér. Tíundirnar í þessum hópi, sem telur alls 44 þús. manns eða þar um bil, eru um það bil jafn fjölmennar, þ.e. sú lægsta sem er á dagpeningum, og sú hæsta, sem eru 75 ára forstjórar, félagar hæstv. fjármálaráðherra; þetta eru um það bil jafn fjölmennir hópar. Þess vegna er alveg örugglega hægt að vinna að markvissum breytingum fyrir þá sem lakast standa. Ég til dæmis mun taka því mjög fagnandi (Forseti hringir.) ef hér verður gert eitthvað í auknum húsnæðisbótum fyrir eldri borgara sem búa í leiguhúsnæði.