148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt að það er einsdæmi að skattleggja raunávöxtun, svo ég viti til alla vega. En við erum nú svo einstök, sérstaklega þegar kemur að óstöðugleika og verðbólgu, og við hér á landi erum eitt af fáum hagkerfum sem einblínir kannski jafn mikið á einhvers konar raunstærðir, raunvexti. En auðvitað búum við almennt við mjög hátt vaxtastig út af þessum óstöðugleika.

Það er erfitt að geta sér til um umfangið. Ef við tækjum mjög grófa áætlun og segðum: Langtímameðaltal verðbólgu, ef við horfum 20–30 ár aftur í tímann, er á bilinu 4–5%. Ef við horfum á okkar stærstu fjárfesta og dreifðustu fjárfesta, sem eru lífeyrissjóðirnir, er langtímaraunávöxtun þeirra á bilinu 4–5% líka. Við getum alveg séð að ef við færum að skattleggja raunávöxtun í fjármagnstekjum væri ekkert óeðlilegt að ætla að vægi verðbólgunnar í þessu væri á bilinu 30–50% af skattstofninum. Þetta myndi hafa veruleg áhrif á tekjuöflun þessa skatts. Ef slík breyting gengi eftir er alveg ljóst að 22% skattur í stað 20% myndi hafa afskaplega lítið að segja á móti tekjutapi ríkissjóðs í hina áttina.

Hins vegar er ágætt að hafa í huga þegar við horfum á þetta að það eru líka aðrir þættir sem kæmu vel til greina í slíkri breytingu, það væri t.d. að leyfa heimilunum frádrátt á vaxtagjöldum sínum á móti vaxtatekjum. Það væri kannski miklu sanngjarnara. Við sjáum að sá möguleiki er auðvitað fyrir hendi, t.d. innan lögaðila: Þar leggurðu saman fjármagnstekjur þínar og fjármagnsgjöld og greiðir skattinn nettó.