148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Þetta er minn skilningur líka, að ef þessi breyting yrði gerð myndi þessi tveggja prósentustiga hækkun á fjármagnstekjuskatti ekki í raun hafa neitt að segja. Þá fer ég að velta fyrir mér undir slíkum kringumstæðum hvað væri þá eðlilegur fjármagnstekjuskattur. Er hann 25%, er hann 30%? Ég er viss um að við eigum eftir að skoða þetta allt saman mjög vel í nefnd, þegar og ef þessi breyting kemur til. En ástæðan fyrir því að ég er að tala um hana er sú að hún var boðuð samhliða þeim hugmyndum að hækka skattinn úr 20% í 22%. Þess vegna finnst mér einsýnt að fyrirhugað er að gera einhverjar breytingar. Þá er ágætt að við séum viðbúin þeirri umræðu þegar við erum að ræða það sem virðist vera hækkun en gæti reynst vera lækkun með hliðsjón af þeim breytingum sem eru boðaðar á sama tíma.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir um hvernig Íslendingar hugsa um verðlag. Það hlýtur að vera nálægt því að vera einstakt. Það er þannig hérna að þeir aðilar á markaðnum sem hafa áhrif á verðlag, helmingur þeirra lítur ekki á það sem hækkun að hækka verð til samræmis við vísitölu neysluverðs, lítur bara ekkert á það sem hækkun. Maður man náttúrlega eftir því þegar strætó hækkaði verðið á sínum tíma, sem hann gerir auðvitað reglulega, að þá verður allt vitlaust og alltaf sagt það sama: Við erum ekki að hækka, við erum bara að setja þetta í samræmi við verðlagið. Það er einmitt þess vegna sem maður verður kannski að gefa þessari hugmynd smáséns vegna þess að hagkerfið okkar einkennist svo mikið af þessum hugsunarhætti. Og ekki bara hjá okkur sem erum að setja í lög þess háttar verðtryggingu, heldur bara í hugsunarhættinum í hagkerfinu sjálfu. Hann er svo ofboðslega mikið þarna. Þetta hlýtur að hafa mikil áhrif á hvernig fólk hagar sínum fjárfestingum og sparnaði, sem dæmi.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður sagði um lögaðila. Ég hef persónulega alltaf meiri áhyggjur af því að ef hugmyndir eins og þær sem hv. þingmaður nefndi væru innleiddar bitnaði það á einstaklingunum því að þeir eru einfaldlega ekki jafn mikið að pæla í fjármálum sínum. Mér finnst betra ef kerfin eru þannig að útreikningarnir séu einfaldlega gerðir af bankanum eða tilheyrandi skattyfirvöldum eða hvernig sem er. Borgarinn geti þá litið yfir það hvernig skattlagningu sé hagað frekar en að hann hafi frumkvæðishlutverk (Forseti hringir.) í því að nýta sér einhverja skattalega kosti.