148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið enn og aftur. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir. Við erum með ansi sérstakan hugsunarhátt þegar kemur að þessum verðlagsuppfærslum, verðbótum, að líta ekki á þær sem hækkanir. Það gerist meðal annars í ríkisrekstrinum. Það þykir alveg sjálfsagt að verðbæta alla gjaldstofna ríkissjóðs á hverju ári. Það eru afskaplega fá fyrirtæki sem starfa t.d. í einhverri virkri samkeppni sem geta leyft sér slíkan hugsunarhátt. Það er ekki borin nein virðing fyrir einhverri verðlagsuppfærslu. Hækkun er hækkun. Þannig á auðvitað hugsunarhátturinn að vera. Hitt er í raun og veru þessi verðbólgusýki sem hrjáir samfélagið, að greina einhvern veginn á milli hækkana eftir því hvort þær eru verðlagsuppfærsla eða bara vegna nauðsynlegs kostnaðar, til að bæta fyrir óumflýjanlegar kostnaðarhækkanir í rekstri. Það væri mjög hollt ef við létum af þessum ósið og svo sem líka í ríkisrekstrinum.

En þegar kemur aftur að fjármagnstekjuhugsuninni: Ég held að það væri mjög áhugavert að skoða, því að lág skattprósenta á sínum tíma var einmitt rökstudd með frádráttarleysi og skattlagningu á nafnvexti en ekki raunvexti, og í háu verðbólgustigi skiptir þetta verulega miklu máli. Það er jafnvel verið að skattleggja þig þegar fé þitt er að rýrna í hárri verðbólgu. Það sér hver maður að ekki er mikil sanngirni í því. Fyrir einstaklinginn gæti verið mjög áhugavert að skoða einmitt heimildir til frádráttar, t.d. vegna húsnæðisskulda eða einhvers slíks þankagangs. Það getur skipt verulega miklu máli fyrir meðaltekjufólk með tiltölulega litlar fjármagnstekjur en oftar en ekki talsvert hærri skuldir en eignir. Það væri mun sanngjarnara skattlagningarkerfi í mínum huga en núverandi fyrirkomulag.