148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það eru einkum þeir þættir í þessu frumvarpi sem snúa að öldruðum sem mig langar að fara aðeins yfir. Hæstv. fjármálaráðherra rifjaði það upp áðan að ég hefði stýrt nefnd um breytingu á almannatryggingalögunum þar sem niðurstaða nefndarinnar hefði verið sú að setja inn skerðingar á launatekjur. Það er alveg rétt munað hjá hæstv. ráðherra að ég stýrði þeirri nefnd. Þannig er að Winston Churchill sagði einu sinni að það væru aðeins heimskingjarnir sem skiptu ekki um skoðun og í krafti þess hef ég leyft mér að skipta um skoðun á þessu máli.

Ég tel að í öldruðum búi auðlegð sem við eigum ekki að láta þjóðfélagið fara á mis við, fyrir utan það að við eigum að örva þau í hópi aldraðra sem treysta sér til, geta og vilja vinna. Við eigum að skapa þeim þau skilyrði að þau geti það. Það er æskilegt á mjög margan hátt. Það er æskilegt vegna þess að lífsfylling þessa fólks verður meiri. Það er æskilegt vegna þess að þegar menn láta af störfum fyrir aldurs sakir fylgir því oft í framhaldinu félagsleg einangrun sem við komum í veg fyrir að með því að „leyfa“ fólki að vinna, að gera því það kleift lengur heldur en ella. Við þurfum reyndar að taka þetta skref aðeins lengra vegna þess að við þurfum að hækka leyfilegan starfsaldur opinberra starfsmanna úr 70 í 73 ár. Ef við gerum það ekki er það marklaust sem stendur í almannatryggingalögunum, að lífeyristaka geti hafist á aldursárunum 65 upp í áttrætt. Ef mönnum er hreinlega bannað að vinna sjötugum þá eiga þeir náttúrlega ekki annan kost en láta af störfum. Einmitt þar, þ.e. í opinbera geiranum, erum við að reka fólk út, ef ég get orðað það þannig, sem býr yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu. Ég vil nefna sem dæmi háskólakennara, sérfræðinga sem vinna á ýmsum stofnunum og í ráðuneytum. Það er sóun á hæfileikum að reka þetta fólk heim sjötugt ef það á annað borð vill halda áfram að vinna. En það er náttúrlega lykilsetningin í þessu: Þeir sem vilja.

Atvinnuþátttaka eldra fólks fjarar mikið út eftir 73 ára aldur. Það eru því ekki nema um 4.500–5.000 aldraðir sem eru á vinnumarkaði af þeim 44.000 sem sá hópur telur. Einmitt þess vegna eigum við að örva, vegna þess að eflaust eru fleiri í hópnum sem gætu hugsað sér að vinna lengur ef þeir hefðu tækifæri til. Þess vegna eigum við að gera þeim það kleift með því að sjá til þess að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur. Það er næsta víst að við 2. umr. um þetta frumvarp mun koma fram tillaga þess efnis af hálfu Miðflokksins í samræmi við kosningastefnuskrá flokksins.

Ég vil líka ítreka það sem kom fram í andsvari mínu áðan varðandi 10% hækkun á fjármagnstekjuskatti sem hér er boðuð; u.þ.b. fimmtungur af þeim skattgreiðslum sem til koma þar eru vegna fjármagnstekna aldraðra, þ.e. aldraðir standa undir 20% af þeirri hækkun sem ríkið fær. Eins og ég sagði í ræðu í gær er það þannig að þessi greiðsla aldraðra á fjármagnstekjuskatti núllar út frítekjumarkshækkunina sem er boðuð hér, þ.e. einn hópur aldraðra sem nýtur fjármagnstekna greiðir fyrir hærra frítekjumark annarra. Þetta eru ekki útgjöld af hálfu ríkissjóðs eða eitthvert dramatískt inngrip í það að laga til fyrir fólk sem vill vinna og þarf að vinna, það eru aðrir sem standa undir þeirri greiðslu, þannig að því sé haldið til haga.

Það vantar inn í þetta hvað menn ætla að gera varðandi fjármagnstekjuskattinn, þ.e. þann hluta hans sem lendir hjá öldruðum. Ætla menn að hafa þar eitthvert hámark eða lágmark? Oft er um að ræða ævisparnað. Þetta er ekki ofsagróði af hlutabréfum eða spiliríi á markaðnum. Þetta er vegna þess að fólk er búið að safna sér upp á heilli starfsævi lágmarkssparnaði sem svo verður skattlagður 10% meira ef þetta heldur áfram óbreytt. Ég treysti á það að í samræmi við loðið orðalag stjórnarsáttmálans muni menn taka þau mál til athugunar og gera eitthvað til að bæta úr.

Mig langar líka að taka fram að ég var öldungis sammála fyrri ræðumanni, nafna mínum Víglundssyni, hv. þingmanni, um það sem á að framlengja nú um bílaleigubíla, ívilnun. Ég tel að löngu tímabært sé að afnema hana. Ég vil benda á eitt: Allar bílasölur á Íslandi eru sneisafullar af notuðum bílum. Mikið af þeim bílum sem þar eru eru einmitt bílaleigubílar sem bílaleigurnar eru búnar að eiga í tilsettan tíma, sem er reyndar mjög stuttur, og geta þess vegna gusað þeim bílum inn á markaðinn. Nota bene hafa þeir bílar ekki verið ódýrar framsettir en bílar sem Jón og Gunna eru að selja. Bílaleigur hafa því greinilega haft mikinn hag af þessu undanfarin ár. Það er vel, en ég held að nú sé kominn tími, fyrir þó nokkru síðan, til þess að menn standi einfaldlega á eigin fótum og sparaður sé sá milljarður, eða hvað þetta er sem hér er inni, ef ég man rétt.

Það er líka annað sem ég kom ekki að í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra áðan og ég vona að hann heyri orð mín hvar sem hann er. Það sem er ekki síður brýnt fyrir utan að leggja fram frumvarp um tekjur ríkissjóðs er að innheimta þessar tekjur. Það væri út af fyrir sig efni í sérstaka umræðu hvað menn ætla að gera til að bæta skattinnheimtu. Það er einfalt að benda á það að 1% bætt innheimta, þá er ég að tala um þegar álögð gjöld, eru 5 milljarðar kr. Hvert prósentustig sem við bætum skattinnheimtu eru 5 milljarðar. Það er ærið fé. Í stað þess að leggja á ný gjöld eða hækka núverandi gjöld, er þá ekki tilvalið að innheimta þau gjöld sem þegar eru álögð?

Ég man þá tíð að á fyrsta ári mínu á þinginu, fyrir einhverjum árum, talaði ég sérstaklega um svarta atvinnustarfsemi í ferðamannageiranum. Það er loksins núna, góðu heilli, fjórum, fimm árum seinna, sem menn eru að gera gangskör að því að fá t.d. gistingu Airbnb skráða þannig að hún greiði virðisaukaskatt og menn greiði tekjuskatt af þeim tekjum sem þar koma til. Það er fyrst núna. Það þýðir að menn eru búnir að leika lausum hala, það er hægt að segja það, í fjögur, fimm ár. Síðasta tala sem ég heyrði, það getur verið að hún hafi batnað, var 13%, 13% af starfseminni eru skráð. Þarna er víða hægt að bæta um betur og innheimta þau gjöld sem sannanlega hafa verið álögð.

Síðan er annað sem er líka efni í aðra sérstaka umræðu. Mig minnir að menn hafi talað um að 22 milljarðar væru settir núna í heilbrigðiskerfið, að sögn. Menn eru um leið, eins og allt lítur út, bæði fjárlagafrumvarp og annað, með því að nýta ekki forkaupsréttinn að Arion banka, að afsala sér verulegum tekjum sem gætu runnið í ríkissjóð. Ég er ekki endilega að tala um að slíkar tekjur ætti að nota beint í rekstur ríkisins heldur til þess að lækka skuldir, vegna þess að það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu um skuldalækkun ríkissjóðs á síðasta ári að hún lækkar vaxtagreiðslur um, ef ég man rétt, 8 eða 9 milljarða á þessu ári. Ef menn myndu vilja hag ríkissjóðs vel ættu þeir að hafa kjark og þor til þess að nýta forkaupsrétt ríkisins á Arion banka og líka þeim hluta sem þegar er búið að láta lausan við erlenda vogunarsjóði. Ég held að þarna sé verk að vinna. Það á eftir að koma í ljós á næstu vikum hvort ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur þann kjark og þá sýn að þora að standa uppi í hárinu á erlendu valdi. Margar persónur og leikendur í þeim hópi hafa reyndar sýnt að þannig sé ekki, svo að sporin hræða, en ég vona samt að menn finni hjá sér döngun og kraft til þess að gera þetta, vegna þess að það skiptir meginmáli. Þetta er líklega eitt stærsta mál sem við eigum við núna.

Ég ítreka það að vilji menn bæta hag ríkissjóðs og vilji menn bæta hag þjóðarinnar þá munu menn taka á þessu máli. Það er algjörlega klárt að Miðflokkurinn mun halda málinu til streitu í þinginu eins lengi og þarf til að berja mönnum kjark í brjóst til að vinna að því.

Það mun koma fram tillaga um það að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur. Það er ekki fyrir stjórnmálamenn að ákveða það hvort einhver sem er aldraður og getur unnið og vill vinna eigi að fá 100 þús. eða eitthvað annað. Menn borga af því skatt og það kemur stjórnmálamönnum ekki við hvort menn geta unnið sér inn meira eða minna. Ég hélt reyndar að ég myndi ekki lifa þann dag að fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins myndi sneiða að forstjórum í Garðabæ með 900 þús. á mánuði. Ég hélt að þeir menn væru uppspretta kosningasjóðs þessa flokks. [Hlátur í þingsal.] Það er ekki að vita nema einhver hafi farið í fýlu í morgun og þá gæti minnkað í sparibauknum í Valhöll.

Ég gladdist yfir þeim vilja fjármálaráðherra í morgun að reyna að gera eitthvað fyrir þá sem lakast standa. Það er löngu liðin tíð að við getum sett aldraða, ég tala nú ekki um aldraða og öryrkja, inn í eitthvert eitt mengi. Það er ekki hægt vegna þess að aðstæður þessara hópa eru svo mismunandi að það þarf að beita sértækum aðgerðum fyrir hvern hóp. Þó að við skiljum eftir þessa 75 ára gömlu forstjóra í Garðabænum eru þarna hópar sem þarf að kanna sérstaklega aðstæður hjá, eins og hjá öldruðum sem búa í leiguhúsnæði sem er dýrt, þeir sem búa í skuldsettu eigin húsnæði, þeir sem búa við háan lyfjakostnað — þetta eru hóparnir sem við þurfum að horfa sérstaklega eftir og gera eitthvað fyrir. Ef það er svo að eitthvað af því fólki sé fært um og hefur áhuga á og vilja til þess að vinna sér inn einhverjar aukakrónur til að létta sér lífið er það ekki hlutverk stjórnmálamanna að koma í veg fyrir það eða setja hömlur á það, nema síður sé. Við eigum að örva. Til þess erum við. — Að öðru leyti þakka ég fyrir.