148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar kemur að ellilífeyri og öllu því sem hann sagði um það, ég er alveg sammála honum um það og ég er nú sammála hv. þingmanni um margt. Eitt af því sem hefur vakið furðu mína alveg frá kosningabaráttunni er þessi hugmynd um að ríkið nýti forkaupsrétt til að kaupa Arion banka og hv. þingmaður segist ætla að berjast mikið fyrir því máli. Mig langar að veita honum tækifæri til þess að gera það. Ég átta mig ekki á því í fyrsta lagi hvers vegna það ætti að þurfa einhvern sérstakan kjark af hálfu ríkisins til þess að fara í aðgerð sem væri efnahagslega skynsamleg. Ef aðgerðin er skynsamleg og ef það er hægt að sýna fram á að það sé skynsamlegt að ríkið nýti þennan forkaupsrétt þá finnst mér það ekki spurning um neinn kjark, það er bara spurning um hvort það sé rétt ákvörðun eða röng út frá hagsmunum ríkissjóðs og almennings.

Ég er svolítið efins um þetta mál en viðurkenni fúslega að ég hef ekki kynnt mér það eitthvað sérstaklega. Ég hef bara heyrt af því í kosningabaráttunni og heyrt frambjóðendur Miðflokksins tala um þetta af og til. Ég sá einhverjar glærur á sínum tíma. Hvers vegna er hv. þingmaður og Miðflokkurinn svona viss um að það borgi sig fyrir ríkið að nýta forkaupsrétt til að kaupa Arion banka? Hvaðan kemur sú vissa að það sé endilega eitthvað sem muni skila ríkissjóði tekjum, hvort sem þær tekjur fara síðan í það að greiða niður skuldir eða hvað annað? Það er það sem ég átta mig ekki alveg á. Mér finnst þetta vera fjármálaleg ákvörðun sem mér finnst að jafnaði óheppilegt að ríkið sé að standa í vegna þess að við sem þingmenn greiðum ekki í ríkissjóð úr eigin vasa, við finnum ekki á sjálfum okkur þegar við tökum einhverja fjárhagslega áhættu.

Þess vegna finnst mér ekki að við eigum að taka mikla fjárhagslega áhættu, við þingmenn eða stjórnmálamenn almennt, sér í lagi þegar talað er um að til þess þurfi kjark. Það slekkur svolítið á áhuga mínum þegar talað er um að þurfi kjark til þess að ríkið fari í einhverjar fjárhagslegar aðgerðir. (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmann að útskýra þetta stefnumál betur og þakka fyrir.