148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn á ný þakka ég hv. þingmanni. Það er kannski ekki hægt að koma fyrir í tveggja mínútna andsvari fullkominni lýsingu á því hvernig þetta mál er vaxið. Ég myndi benda hv. þingmanni á kosningastefnuskrá Miðflokksins sem er á heimasíðu flokksins þar sem endurskipulagning bankakerfisins, ekki bara Arion banka, er sett fram á mjög ljósan og skýran hátt. Yfirtaka ríkisins á Arion banka er útlátalaus af hálfu ríkisins vegna þess að Arion banki er hluti af stöðugleikasamningunum, sem margir þeir einstaklingar sem nú eru í Miðflokknum stóðu fyrir á sínum tíma að gerður yrði þannig að andvirði sölu Arion banka lendir hjá ríkinu. Spurningin er að hámarka þann hagnað sem ríkið getur haft með því að eignast þennan banka tímabundið og selja hann síðan. Fyrir þessu er gerð mjög góð grein eins og ég segi í kosningastefnuskrá flokksins og á heimasíðu hans og ekki bara því heldur hvernig allt fjármálakerfið skuli endurskipulagt. Það er næsta víst að þetta er, eins og við höfum sagt, stærsta tækifæri sem þjóðin stendur frammi fyrir núna. Með því að eignast Arion banka tímabundið og skipta honum upp er ekki verið að stuðla að því eða stefna að því að ríkið sé þátttakandi í áhættufjárfestingu til einhvers tíma. Alls ekki.

Svo ég nefni dæmi þá er það líka hluti af þessari skýringu að taka Íslandsbanka með sama hætti og selja hann síðan erlendum banka til þess að tryggja hér samkeppni á bankamarkaði. Ég segi aftur við hv. þingmann, af því að ég heyri að hann hefur áhuga á þessu máli og ég fagna því, að ég myndi ráðleggja honum að skoða þetta á heimasíðu flokksins. Ég hlakka til og þykist vita að við eigum bandamann (Forseti hringir.) í hv. þingmanni þegar að þessu kemur. Ég veit að hann er kjarkmaður.