148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[12:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Tilefni þess er að lagagrundvöll skortir til að útlendingar geti fengið leyfi til dvalar til að stunda hér iðnnám, líkt og heimilt var samkvæmt eldri lögum um útlendinga. Það hefur leitt til þess, eins og menn þekkja úr fréttum, að iðnnemum sem þegar höfðu fengið dvalarleyfi á gildistíma eldri laga og óskuðu eftir endurnýjun á grundvelli núgildandi laga hefur verið synjað um áframhaldandi dvalarleyfi. Frumvarpið felur í sér breytingu til fyrra horfs þannig að unnt verði að veita dvalarleyfi vegna iðnnáms.

Virðulegur forseti. Með frumvarpi því er ég mæli fyrir í dag er lagt til að ákvæði 15. töluliðar 3. gr. laga um útlendinga, sem er orðskýring náms, verði felld brott þar sem hún hefur valdið óskýrleika við túlkun laganna. Er orðskýringin til að mynda ekki í samræmi við túlkun orðsins náms í einstökum greinum laganna. Í stað orðskýringarinnar er lagt til að skilgreiningu á námi vegna dvalarleyfis á grundvelli náms verði bætt við 1. mgr. 65. gr. laganna.

Þá er jafnframt lögð til undanþága frá áðurnefndri skilgreiningu þess efnis að heimilt verði að veita iðnnemum dvalarleyfi á grundvelli náms hér á landi. Ákvæði eldri laga um útlendinga um dvalarleyfi vegna náms tók einnig til dvalar á grundvelli iðnnáms. Það er ekki svo í núgildandi lögum um útlendinga. Í lögskýringargögnum, þar með talið í greinargerð og umræðum á Alþingi um frumvarp það er varð að lögum nr. 80/2016, er ekki að finna skýra vísbendingu um ákvörðun löggjafans að fella iðnnema sérstaklega úr skilgreiningu laganna á námi. Eftir skoðun mína á málinu þegar ágalli þessi kom upp í haust og samræðum mínum við nokkra þá sem sátu í hinni þverpólitísku nefnd sem lagði drög að nýjum útlendingalögum varð ég engu nær um ástæður þess að iðnnámið féll þarna út þannig að með frumvarpi þessu er lagt til að horfið verði til baka til þeirrar reglu sem gilti í tíð eldri laga.

Virðulegur forseti. Ég hef þá gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins, það er ekki langt, frumvarpið sjálft, og legg til að því verði að lokinni umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis til þóknanlegrar meðferðar og 2. umr.