148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[12:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum svarið. Ég vona að við getum í framhaldinu farið að vinna þessi lög til enn betra horfs, sérstaklega varðandi atriði þar sem er skörun á milli útlendingamála og annarra málaflokka. Hér erum við að tala um menntamál í samhengi við útlendingalögin. Annað dæmi sem við leiðréttum var það sem snerti skiptinema undir lok þings í vor þar sem allsherjar- og menntamálanefnd flutti frumvarp vegna þess að einhverra hluta vegna höfðu skiptinemar á framhaldsskólastigi fallið á milli skips og bryggju, það hafði bara verið gert ráð fyrir skiptinemum á háskólastigi. Eins og ráðherrann segir þá voru mörg augu sem rýndu þetta á sínum tíma og misstu af þessu. Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum eitthvað markvissara, skýrara ferli sem verði sett í gang samhliða þeirri endurskoðun sem er fram undan þannig að það verði skipulögð rýni á lagabálkinum til þess að finna atriði þar sem gætu verið svona lapsusar.