148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[12:59]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka undirtektirnar og er ánægð með þær. Mig langar þá að nota seinna tækifæri mitt hér í ræðustól til að lýsa því yfir að ég mun alla vega eiga frumkvæðið að því að við getum haldið áfram með þetta mál og/eða stutt við frumkvæði hæstv. ráðherra.

En rétt í lokin vil ég árétta að við erum að tala hér um flókinn lagabálk. Eins og menn muna hafa ýmis mál komið upp á síðustu vikum, mánuðum og árum sem varða einhver mistök; það falla niður mál og lagaleg túlkun fer ekki alltaf saman við viljann o.s.frv. Ein ástæðan er líklegast sú að verið er að flækja lögin. Tilgreint er nákvæmlega hverjir falla undir þau og hverjir ekki. Ég mælist til þess að þegar hægt er, eins og í þessu tilfelli, þar sem erfitt er að átta sig á því af hverju þurfti að vera með einhverjar undantekningar, af hverju skilyrðið gat ekki bara verið undantekningarlaust, að við skoðum það nánar og höldum flækjustiginu í svo miklu lágmarki sem hægt er.