148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[13:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að nýta þetta tækifæri til að tala eilítið um verklag. Lagfæringin á því frumvarpi sem verið er að fjalla um hér snýst greinilega um vandamál við heildarendurskoðun laga en ákveðin atriði í eldri lögum leyfðu t.d. nemendum að stunda nám í framhaldsskóla og vera með dvalarleyfi. Þetta atriði sem gömlu lögin leyfðu dettur út í nýju lögunum án útskýringa. Alla jafna, í þeim verkefnum sem ég hef unnið í á öðrum vettvangi, er til listi af þeim eiginleikum og atriðum sem eiga að nást fram með þeirri lausn, í þessu tilviki lögum, sem verið er að vinna að; listi sem nær yfir öll atriðin; að maður geti skrifað lagagrein, eða ákveðið einhvern eiginleika í forriti og svoleiðis, og um leið tryggt að þau atriði sem eru hluti af þeim eiginleikum sem lausnin eða lögin eiga að ná til séu uppfyllt.

Það er augljós galli í þessu ferli að slíkur listi yfir þá eiginleika sem lögin eiga að búa yfir hefur greinilega ekki verið til. Annars hefði það verið mjög augljóst að ekki hefði verið merkt við þann reit að framhaldsskólanemi gæti fengið dvalarleyfi þegar verið var að fylla inn í nýju lögin. Þetta er enn eitt dæmi um svona mistök þegar mál eru unnin á harðahlaupunum í lok þingsetningar eða því um líkt.

Án þess að hafa slíkan tékklista yfir það hvaða eiginleikum lögin eiga að búa yfir, eða hvaða eða lausnum á að skila, þá lendum við í mistökum og endurtökum þau aftur og aftur. Ég nefni lögin sem við þurftum að lagfæra afturvirkt varðandi almannatryggingar, sem kostaði 2,5 milljarða á mánuði. Fleiri slíkar lagfæringar höfum við þurft að gera áður. Þetta sýnir mér að það er eitthvað að verklaginu, sérstaklega við uppfærslu við heildarendurskoðun á lögum, sem við þurfum í alvöru að taka til skoðunar. Til er fullt af aðferðum og tólum sem hjálpa til við þetta og eiga við t.d. í hugbúnaðargerð sem hægt væri að taka inn í lagasetningu.

Í því tilviki vil ég minna á að samkvæmt þingsályktun sem Alþingi hefur samþykkt eiga þingskjöl nú að vera á rafrænu formi þannig að tölva geti lesið sig í gegnum lögin. Þá geturðu spurt tölvuna: Hver er 1. mgr., 2. málsliður, töluliður o.s.frv.? Þú færð nákvæmlega þá grein eða þann texta sem þar á við. Það hefur ekki enn orðið. En ef búið væri að uppfylla þá þingsályktun værum við komin mun nær skipulegu verklagskerfi í kringum endurskoðun á lögum eða uppfærslu á lögum.

Ég beini því til ríkisstjórnarinnar að klára þessa þingsályktun og að huga vel að þeim verkferlum sem snúa að því að laga eða uppfæra lög nú á næstunni þannig að við þurfum ekki að lenda í þessu aftur. Til eru góðar lausnir við þessu á öðrum sviðum sem við þyrftum að taka til greina. Nýtum þá þekkingu sem er til og komum í veg fyrir mistök af þessu tagi í framtíðinni.