148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[13:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eitt og annað sem mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í varðandi þetta frumvarp til laga og kannski fyrst lýsa yfir áhyggjum mínum yfir hversu seint er verið að vinna þetta allt. Dómstólar landsins eru auðvitað hluti af þeim grunnstoðum sem við borgararnir verðum að geta treyst að þar sé faglega unnið. Þá verð ég að segja að það er afar óheppilegt, svo ekki sé sterkar að orðið komist, að verið sé að reka tvöfalt kerfi varðandi áfrýjanir á Íslandi í réttarkerfinu, þ.e. að ódæmd sakamál sem áfrýjað er til Hæstaréttar verði hjá Landsrétti en ódæmd einkamál sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar verði hjá Hæstarétti. Bent hefur verið á það og hægt er að sjá þetta í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu að þetta er auðvitað hluti af öllum þeim vinnubrögðum sem tengjast þessu.

Við vissum fyrir löngu að Landsréttur tæki til starfa 1. janúar næstkomandi en einhverra hluta vegna virðist þetta allt vera gert meira og minna með einhverjum handarbakavinnubrögðum, hvort tveggja er varðar áfrýjun máls sem og regluverkið allt. Nú þarf að gefa einum settum dómara leyfi vegna annarra starfa og þar fram eftir götunum. Ég velti fyrir mér hvort það séu fleiri atriði sem við verðum einhvern veginn að reyna að laga til í vegna þess að ekki hefur verið betur unnið að þessum málum.