148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[14:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einu sinni svo að Landsréttur er millidómstig. Ég velti fyrir mér hvernig framhaldinu verður svo háttað. Hvernig verður með þau mál sem dæmd verða í Landsrétti og mögulega eiga þess kost að fara áfram til Hæstaréttar, og hins vegar þau mál sem áfrýjað verður eftir 1. janúar, einkamál sem einnig eiga þess kost að fara áfram til Hæstaréttar, þ.e. fá leyfi til að fara alla leið þangað? Þarna er komið ákveðið ójafnvægi milli aðila sem eru að reka mál fyrir íslenskum dómstólum. Þess vegna var hæstv. dómsmálaráðherra spurð út í þetta atriði.

Það er önnur spurning sem kviknar hjá þingmanninum við lestur greinargerðar með frumvarpinu, þ.e. að settur verði dómari tímabundið fyrir dómara í leyfi í Hæstarétti. Vegna ítrekaðra tilvika þar sem hæstv. dómsmálaráðherra er vanhæf til að skipa eða setja dómara er spurt: Hver mun þá taka að sér að setja þann dómara sem talað er um að verði settur í stað þeirra sem eru í leyfi í Hæstarétti?