148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[14:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Svo að ég snúi mér aðeins að öðru: Hæstv. ráðherra átti í orðaskiptum við hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur rétt í þessu og hafnaði því að handarbakavinnubrögð hefðu verið viðhöfð við setningu Landsréttar. Mig langaði aðeins að rifja upp fyrir hæstv. ráðherra þau fjölmörgu bráðabirgðalög sem við höfum þurft að samþykkja á þessu þingi vegna þess að ekki hefur verið hugað nógu vel að lagasetningu í kringum Landsrétt, m.a. einfaldlega til að tryggja að valnefnd um hæfni dómara geti valið dómaraefni í Landsrétt. Það var til dæmis ekki fyrirséð í lögum um Landsrétt. Við höfum þurft að standa í svokölluðum reddingum vegna þessara laga.

Ég vildi í því ljósi spyrja hvort ráðherra sjái fyrir sér að það verði fleiri bráðabirgðalög sem við munum þurfa að taka í gegnum þetta þing til þess að koma þessum Landsrétti af stað.

Þá langar mig að spyrja hvort utanumhaldi um hvernig þessum skipunum ráðherra á hæstaréttardómurum sem fara í leyfi verði háttað, hvort ráðherra geti skipað aðra en þá sem Hæstiréttur leggur til eða hvort hendur ráðherra séu algerlega bundnar tillögu Hæstaréttar; og hvar þetta verði birt þar til dómstólasýslan tekur við. Takk.