148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[14:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að vera hreinskilinn með það að ég átta mig ekki á hvað er verið að skamma mig fyrir. Hv. þingmaður biður um að settur dómsmálaráðherra í ákveðnu máli komi til umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla og fleiri lögum. Hún fer síðan að segja mér að ég viti ekki hvernig staðan er í þeirri nefnd sem ég vísaði til og vildi ekki ræða efnislega. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvert hv. þingmaður er að fara. Þegar hv. þingmaður segir að héraðsdómstóllinn muni tæmast í byrjun janúar þá veit ég ekki hvað hún hefur fyrir sér í því. Það er verið að setja átta dómara af 42. Ég veit ekki alveg hvert þessi umræða er að fara eða hvert hún á að leiða. Ég varð við beiðni hv. þingmanns, sem er eftir því sem ég best veit harla óvenjuleg, að kalla til settan ráðherra í einstökum málum í umræðum um frumvarp um breytingu á lögum um dómstóla og fleiri lögum í þessu tilfelli. Ég frábið mér að vera húðskammaður fyrir að vita ekki hver staðan er í þeirri nefnd sem ég vísaði til og stend við það að ég vil ekki ræða efnislega þau mál fyrr en nefndin hefur lokið störfum. Héraðsdómstólarnir tæmast ekki 1. janúar, jafnvel þótt ekki verði búið að skipa þessa átta dómara. Hv. þingmaður þekkir það mjög vel. Ég veit ekki alveg hvert þessi umræða á að leiða en það er sjálfsagt að koma þegar maður er kallaður til og reyna að veita sem bestar upplýsingar, en hv. þingmaður veit mætavel að ekki hæfir að ræða málið meðan það er í efnislegri umfjöllun hjá viðkomandi nefnd.