148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

mannvirki.

4. mál
[14:24]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum. Frumvarpið var unnið í samvinnu við Mannvirkjastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga og hefur farið í gegnum opið samráðsferli.

Í frumvarpinu er lagt til að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúar fái rýmri frest en kveðið er á um í gildandi lögum til að afla sér nauðsynlegrar faggildingar til að geta farið yfir hönnunargögn og annast úttektir í samræmi við ákvæði laga um mannvirki.

Við vinnslu frumvarps til laga um breytinga á mannvirkjalögum kom fram eindreginn vilji Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags byggingarfulltrúa um að embættum byggingarfulltrúa yrði veittur rýmri frestur til þess að afla sér faggildingar til að fara yfir framangreind hönnunargögn og annast úttektir. Ástæða þess er sú að undirbúningur embætta byggingarfulltrúa við að afla sér faggildingar er of skammt á veg kominn, en samkvæmt bráðabirgðaákvæði mannvirkjalaga rennur frestur til að afla faggildingar út núna um næstu áramót.

Ráðuneytinu er jafnframt kunnugt um að ekki eru enn fyrirtæki á markaði sem hafa aflað sér faggildingar til þess að annast þessi verkefni. Því er ljóst að verði ekki brugðist við með framlengingu tímafrests má gera ráð fyrir að skortur verði á lögbærum aðilum til að annast verkefni sem krefjast faggildingar frá og með 1. janúar 2018.

Í frumvarpinu er lagt til að frestur byggingarfulltrúa og Mannvirkjastofnunar verði framlengdur til 1. janúar 2019 til að afla sér faggildingar til að yfirfara séruppdrætti og annast úttektir, og til 1. janúar 2020 til að afla sér faggildingar til að yfirfara aðaluppdrætti.

Lagt er til að kröfu um faggildingu verði áfangaskipt með þessu móti þannig að viðkomandi aðilar hljóti lengri frest til að afla sér faggildingar vegna aðaluppdrátta. Gera má ráð fyrir að smærri embætti byggingarfulltrúa muni í einhverjum tilfellum nýta þjónustu faggiltra skoðunarstofa til að annast yfirferð á séruppdráttum, en afla sér frekar faggildingar vegna aðaluppdrátta og úttekta. Þannig geta aðilar aflað sér faggildingar vegna þessara verkefna í áföngum.

Hæstv. forseti. Ég hef nú hér rakið meginefni frumvarpsins. Mikilvægt er að koma í veg fyrir fyrirséða óvissutengda útgáfu leyfa til mannvirkjagerðar þar sem sú staða getur komið upp að engir bærir aðilar verði til staðar til þess að annast þessi mikilvægu verkefni í mannvirkjagerð verði frumvarpið ekki að lögum.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.