148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:08]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er alveg rétt að hér er um lagasetningu um grundvallarlöggjöf að ræða. Enginn ráðherra eða einn þingmaður getur sagt öðrum þingmanni hvernig hann á að greiða atkvæði eða haga störfum sínum í þingsal. En ég legg á það ríka áherslu að ef mögulegt er að ná um þetta þverpólitískri samstöðu er það mjög mikilvægt. En ég geri mér líka grein fyrir að auðvitað geta verið skiptar skoðanir um einstök atriði. Það er undir hverjum og einum þingmanni komið hvaða lyktir málið fær á Alþingi. En sú nálgun sem ég hef á þetta mál og ég undirstrikaði með því að byrja á að kalla fulltrúa allra flokka til mín á fund var að mér finnst að við eigum að geta nálgast þetta á þverpólitískan hátt.

Ég finn það líka og er þakklátur fyrir það að við skulum vera að mæla fyrir þessum tveimur stærri málum núna, ásamt bráðabirgðaákvæðinu. Það er ekkert sjálfgefið. Það hefði auðvitað verið sjálfgefið að klára bráðabirgðaákvæðið, en að hin tvö málin skuli vera rædd hér og þessi þrjú mál saman finnst mér undirstrika þann hug sem þarna býr að baki. Ég hef sagt að við vinnu reglugerðanna, við vinnu handbókarinnar, hyggst ég áfram hafa þverpólitíska nálgun. Ég sagði það á fundi með fulltrúum allra flokka að ég væri tilbúinn að skipa formlega þverpólitískan hóp, líkt og samkomulag þingmanna við þinglok fjallaði um, en að við gætum líka haft það óformlegt. Ég undirstrika að öll sú vinna sem fram fer í ráðuneytinu á að mínu viti að vera þannig að fulltrúar allra flokka hafi aðgang að henni. Það er þess vegna sem er mikilvægt að (Forseti hringir.) velferðarnefnd fái yfirlit yfir það strax á mánudaginn.