148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:15]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir. Jú, ég get sagt algerlega skýrt að auðvitað er mjög mikilvægt að þessi mál klárist. Ég held hins vegar að miðað við þann stutta tíma sem er fram að áramótum sé ekki nauðsynlegt að þessi tvö stærri mál klárist fyrir áramót. Við þurfum að klára bráðabirgðaákvæðið fyrir áramót. Hin tvö málin kann að vera skynsamlegt að fara yfir í janúar. Það hafa verið gerðar smávægilegar breytingar á málunum, ekki stórar. Fara yfir það í janúar en að þau séu kláruð snemma á nýju ári.

Ég held líka, svo allrar sanngirni sé gætt, að talsvert mikið hafi gerst við vinnslu reglugerðanna á þeim tíma sem málin hafa verið að vinnast. Vegna margra þeirra gagnrýnisradda sem komu fram á málið hefur sitthvað síðan skýrst betur við reglugerðarsmíðina. Það hefði auðvitað gerst líka þótt málin hefðu verið kláruð á sínum tíma. En engu að síður finnst mér það mjög ábyrgt í stórum málaflokki eins og þessum vegna þess að það kvikna mjög margar spurningar í tengslum við þetta mál. Þannig að það er ekkert óeðlilegt, þó að ég hafi ekki verið á þingi á þessum tíma, að margir þingmenn hafi viljað sjá betur heildarrammann með reglugerðunum samhliða. Það er þess vegna sem ég legg svo mikla áherslu á það núna í framhaldinu að opna vinnuna við reglugerðarsmíðina samhliða því sem frumvarpið klárast. Þá fá menn betur að sjá heildarmyndina. En ég ítreka líka að þetta mál, eins og ég sagði áðan, er þess eðlis að það verða mjög mörg atriði sem munu þarfnast endurskoðunar í lögunum og kannski ekki hvað síst í reglugerðunum þegar þetta fer síðan að virka.

Ég ítreka líka að það er mikilvægt að við reynum að vinna þetta í eins breiðri og þverpólitískri sátt og mögulegt er. Það er vilji þess sem hér stendur að gera það með þeim hætti. Ég heyri að það er líka þannig hjá hv. þingmanni og það er mjög vel.