148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:18]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir og ítreka að jafnvel þótt þessi tvö mál klárist ekki núna að með bráðabirgðaákvæðinu og með því að útvíkka það eins og kom fram í ræðu minni veldur það ekki töfum gagnvart þeim sem hefðu átt að fá þjónustu á árinu 2018. Ég vil líka segja að það er mikilvægt að klára þessi mál og legg aftur áherslu á það við hv. velferðarnefnd að það er mikilvægt að reyna að vinna þetta hratt og vel. Þess vegna er svo mikilvægt að við höfum náð að mæla fyrir þessum málum núna þannig að þau geti farið til nefndarinnar, hún geti formlega byrjað að vinna málið í janúar áður en þing kemur saman. Ég held að það undirstriki vilja núverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna til þess að vinna þetta mál hratt og vel. Og það undirstrikar líka vilja núverandi ríkisstjórnar til þess að hleypa öllum flokkum að borðinu vegna þess að þetta er ekki flokkspólitískt mál eins og hefur komið fram í þessari umræðu.