148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:21]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess að vera algerlega heiðarlegur fór endurskoðun á þessum tölum ekki fram við ríkisstjórnarskiptin núna. Við höfum haldið okkur við það sem fyrri ríkisstjórn lagði upp með. Þetta stýrist af tveimur þáttum og samspili þeirra. Annars vegar eru það þær fjárveitingar sem áætlaðar eru á árinu 2018 sem áætlað er að hækki í framhaldinu og hins vegar er að einhverju leyti tekið inn í umræðuna samráð við sveitarfélög og það sem hefur komið fram hjá þeim um það sem þau telja sig ráða við í þessu skrefi, en það verður aukið jafnt og þétt á næstu árum.

Þetta er svar mitt við þessu. Ég segi það algerlega af hreinskilni að þetta er ekki eitthvað sem hefur sérstaklega verið tekið til endurskoðunar á þessum fyrstu tveimur vikum ríkisstjórnarinnar eða eitthvað sem ég hef farið nákvæmlega ofan í. Þetta er forsagan af því hvernig þessi tala er til komin.