148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:24]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að hafa þetta stutt núna í 1. umr. Ég ætla ekki að fara að endurtaka alla þá gagnrýni sem ég hef þegar komið með á þessi tvö stóru frumvörp í þegar við ræddum þau síðast, þ.e. þetta frumvarp um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og frumvarpið um félagsþjónustu sveitarfélaga, enda hafa ekki orðið neitt rosalega miklar breytingar síðan við tókum þessa umræðu síðast. Það er að hægt að fletta upp gömlum ræðum á alþingisvefnum fyrir þá sem hafa áhuga á að heyra þá gagnrýni.

Það voru 53 umsagnir sendar inn á 146. þingi þegar frumvörpin komu fyrst til umfjöllunar þingsins. Kom margvísleg gagnrýni þar fram og margar af þeim gagnrýnisröddum hefur ekki enn þá verið komið til móts við. Mögulega er það ástæðan fyrir því að við erum stödd hér nú og tökum þetta fyrir aftur.

Það er ljóst að nefndin mun þurfa að hafa tíma til þess að kafa vel í þessi mál en það er gert ráð fyrir að þau taki gildi um mitt ár 2018.

Það virðist vera almenn sátt um að þessi tvö stóru frumvörp, þ.e. frumvarpið um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir sem og frumvarpið um félagsþjónustu sveitarfélaga, fái góðan tíma í nefndinni til að gefa sem flestum tækifæri til að senda inn umsagnir og fyrir nefndina til að bregðast við gagnrýni og tryggja eins vel og hægt er að þessar breytingar séu til góðs fyrir sem flesta. Það er markmiðið sem við viljum öll ná og það er líka gott að hafa í huga að það er náttúrlega nýtt fólk að koma inn í nefndina sem þekkir ekki sögu málsins jafn vel. Til þess að gefa okkur þennan nauðsynlega tíma til að vinna þessi mál hefur hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra lagt samhliða fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks sem felur í sér framlengingu bráðabirgðaákvæðis þar sem kveðið er á um réttinn til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem verður náttúrlega afgreiddur fyrir áramót og mun taka gildi 1. janúar.

Eins og ég tók fram í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan þá myndi ég vilja sjá sett meira fjármagn í þennan málaflokk núna til þess að passa upp á það að allir þeir sem þurfa á þessum samningum að halda geti fengið þá. Það var eitthvað sem ég gagnrýndi líka við frumvarpið í heild að innleiðingin gerðist ekki nógu fljótt. Það tekur nokkur ár til að fjölga þessum samningum. Ég hef áhyggjur af því að það verði aðilar sem þurfa á þessari þjónustu að halda sem fái ekki aðgang að henni.

Þetta er það sem mig langaði til þess að segja og líka að það er vilji minn sem formaður velferðarnefndar að þetta mál verði afgreitt sem fljótast, en vel. Við verðum að gera það vel. Það má ekki flýta því of mikið. Við verðum bara að gera þetta fljótt en hægt, hvernig sem það meikar sens, og passa upp á að þetta hafi ekki neikvæðar afleiðingar fyrir neinn í samfélaginu. Það skiptir gífurlega miklu máli.