148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt það sem ég er að reyna að ræða, þegar við förum að reyna að svara mörgum þeirra spurninga sem eru uppi, til að mynda um vinnusamband þess sem nýtur þjónustunnar og þess sem þjónustar viðkomandi, þetta með hagnaðarskynið, kostnaðarþátttökuna, val á samningum og ýmislegt. Þetta er svo stór lagabálkur sem tekur á svo mörgu að ég held að við þurfum að sætta okkur við það að ná aldrei að svara öllum þessum spurningum í meðförum þingsins. Þess vegna tel ég mjög brýnt með lög sem hafa verið svona lengi í undirbúningi, hafa komið fyrir þingið áður og fengið umsagnir og samráð, að við reynum að flýta vinnu þeirra eins mikið og við mögulega treystum okkur til, svo að þegar gildistakan á að vera um mitt ár 2018 séu lögin búin að vera í ákveðinni vinnu og við höfum haft tíma sem þing til að bregðast við þeim vandamálum sem komu upp í þeirri vinnu. Ég held að mikilvægt sé að klára lögin sem fyrst þannig að við getum brugðist við áður en þau eiga að taka gildi.