148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, að sjálfsögðu eigum við að ganga í málið og klára það, en það er auðvitað samt þannig að málið er aldrei búið fyrr en það er búið og sú þingnefnd sem hefur málið til umfjöllunar treystir sér til þess að afgreiða málið og þannig klára það. Það er þangað sem við verðum að komast eða þangað sem við ætlum að komast. Ég treysti mér ekki til að segja hvort hv. velferðarnefnd þarf marga fundi til þess að komast á þann stað, ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því, ætla ekki að fara að segja hv. velferðarnefnd fyrir verkum í því, en það þarf að botna málið og við sem hér erum inni þurfum svo að lokum að hafa þann pólitíska kjark en líka þá pólitísku sannfæringu að nú sé þetta bara komið og nú klárum við þetta. Ég held að við séum komin mjög nálægt þeim punkti. Ég er mjög bjartsýn á að þetta sé bara nánast komið. Eins og ég sagði þá eru atriði sem þarf að klára. Við þurfum að passa það í allri löggjöf að allt sem við gerum sé í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en í málefnum sem snúa sérstaklega að fötluðu fólki þá myndi ég segja að það væri algjört lykilatriði. En líkt og hv. þm. Halldóra Mogensen benti á kunna að vera einhver áhöld um hvernig eigi að túlka mál. Þannig að þetta þurfum við að passa.